Læknanemar í­ Malawí­
04 janúar, 2007

Brottför á morgun!

Stundin er að renna upp. Bakpokinn er farinn að fyllast af dóti, alveg ískyggilega miklu. Veit ekki alveg hvort allt kemst í pokann sem mig langar að taka með. Myndi náttúrulega helst vilja taka heilan gám og gefa. Eitt er víst að tuskudúkkan sem tíu ára frænka mín saumaði og gaf mér í tilefni þessarar ferðar verður með í pokanum. Hún vildi að ég tæki hana með og gæfi einhverri stelpunni þarna úti, frá lítillri íslenskri stelpu til lítillrar malavískrar stelpu. Þetta er bara of krúttlegt. Veit reyndar ekki hvar ég á að kaupa moskitónet, vonandi finn ég það áður en við förum.

Löngu áður en venjulegt fólk fer á fætur í fyrramálið munum við Hrafnhildur leggja af stað og hefja ferðina löngu til Malawi. Sjálf ferðin tekur um það bil einn og hálfan sólarhring. Meiningin er að hitta Írisi stöllu okkar á Heathrow og þá erum við þremenningarnir sameinaðar og verðum það næstu vikurnar.

Samkvæmt veðurspá á netinu er möguleiki á þrumuveðri næstu daga en engin rigning. Hiti í kringum 28°C, hljómar hreint ekki illa. Ætli það þýði ekki að stuttbuxurnar muni koma að góðum notum?

Eva og Magga Dís unnu gott verk í morgun þegar þær mættu í býtið til Sirrýar og Heimis og sögðu aðeins frá verkefninu sem við erum að fara út í. Í morgunsjónvarpinu verða reglulegar fréttir af okkur og ef svo óheppilega vildi til að þið misstuð af þættinum í morgun þá getið þið kíkt á hann hér.

Næsta færsla kemur væntanlega eftir að við náum á leiðarenda. Óskið okkur góðrar ferðar og öruggrar heimkomu :)


::Sólveig:: |15:11|

-----------------------------

Comments: Skrifa ummæli















5. jan: Lagt af stað
11. jan: Vika 1




Frumtök styrkja okkur
með niðurgreiðslu á
fluginu. Þökkum við
þeim kærlega fyrir.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands
Læknanemar
Háskóli Ísland
Hjálparstarf kirkjunar
Landlæknir
Forvarnarstarfið
Landspítalinn
Röntgen Domus
Mogginn